Ferill 424. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 632  —  424. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um loftslagsmál , nr. 70/2012,
með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla
koldíoxíðs, vistvæn ökutæki).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Á eftir 7. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum: Niðurdæling og geymsla koldíoxíðs neðanjarðar í jarðlögum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað „31. ágúst“ í 4. málsl. 3. mgr. kemur: 31. júlí.
     b.      1. málsl. 7. mgr. orðast svo: Rekstraraðilar starfsstöðva sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skulu fyrir 31. mars ár hvert skila skýrslu til Umhverfisstofnunar þar sem sýnt er fram á að losun frá starfsstöðinni sé undir 25.000 tonnum af koldíoxíðsígildum á undangengnu almanaksári og skilyrði um að uppsett afl starfsstöðvar sé undir 35 MW á undangengnu almanaksári þurfa einnig að vera uppfyllt ef brennsla er hluti af starfseminni.

3. gr.

    Á eftir IX. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IX. kafli A, Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum, með einni nýrri grein, 32. gr. a, og IX. kafli B, Opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum, með einni nýrri grein, 32. gr. b, svohljóðandi:

    a. (32. gr. a.)
    Óheimilt er að geyma koldíoxíð í jarðlögum, sérefnahagslögsögu og á landgrunni.
    Bann 1. mgr. tekur ekki til verkefna í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni þar sem ætlunin er að geyma minna en samtals 100 kílótonn koldíoxíðs.

    b. (32. gr. b.)
    Opinberir aðilar, sem skilgreindir eru í lögum um opinber innkaup, skulu við innkaup á farþega- og vöruflutningabifreiðum yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu taka mið af líftímakostnaði farartækis vegna orkunotkunar og umhverfisáhrifa, sbr. 2. mgr., og nota a.m.k. aðra þeirra aðferða sem settar eru fram í 3. mgr. í því skyni að draga úr orkunotkun og skaðlegum umhverfisáhrifum.
    Að því tilskildu að upplýsingar liggi fyrir ber að taka tillit til eftirfarandi umhverfisáhrifa:
     a.      orkunotkunar,
     b.      losunar koldíoxíðs,
     c.      losunar köfnunarefnisoxíða, kolefnissambanda annarra en metans og svifryks.
    Skilyrði 1. og 2. mgr. skal uppfylla með eftirtöldum aðferðum:
     a.      með því að setja fram tækniforskriftir í útboðsskilmálum varðandi orkueyðslu og umhverfisáhrif farartækis auk hvers kyns annarra umhverfisáhrifa sem leiðir af kaupunum eða
     b.      ákvörðun um innkaup með hliðsjón af líftímakostnaði vegna orkunotkunar og umhverfisáhrifa með því að setja slíkan kostnað fram sem valforsendu í skilmálum útboðs eða annars innkaupaferlis eða með reikningsaðferð sem sett er fram í reglugerð með stoð í lögum þessum.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari skilgreiningu á því hvaða innkaup falla undir 1. mgr., ásamt lýsingu á þeirri aðferðafræði sem beita skal við útreikning á rekstrarkostnaði og endingartíma, svo og um framfylgd reglnanna.

4. gr.

    Við 47. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     6.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/31/EB frá 23. apríl 2009 um geymslu koltvísýrings í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr. 1013/2006 sem vísað er til í tölulið 19a í III. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 frá 15. júní 2012.
     7.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/33/EB frá 23. apríl 2009 um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum sem vísað er til í tölulið 21av. III. kafla í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2013 frá 8. október 2013.

5. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (V.)
    Líta skal svo á að allar kröfur sem gerðar eru til flugrekenda í 17. og 21. gr. séu uppfylltar að því er varðar:
     1.      alla losun flugs til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
     2.      alla losun flugs á milli flugvalla sem staðsettir eru á Gvadelúpeyjum, Mayotte, Frönsku Gíneu, Martiník, Sankti Martins-eyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum og flugvallar sem staðsettur er á Evrópska efnahagssvæðinu, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016,
     3.      alla losun flugs á milli flugvalla í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem á við um Grænland og Færeyjar, á hverju almanaksári frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016.
    Enn fremur skal ekki gripið til aðgerða gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi í 1.–3. tölul. 1. mgr.
    Frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 er flug á vegum flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn undanskilin gildissviði viðskiptakerfisins og laga þessara.
    Umhverfisstofnun skal á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2016 endurúthluta endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekenda í samræmi við breytt gildissvið viðskiptakerfisins.

    b. (VI.)
    Ákvæði 1. mgr. 32. gr. a skal endurskoða ekki síðar en árið 2020.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta felur í sér innleiðingu tilskipunar 2009/31/EB um föngun og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum. Í frumvarpinu er jafnframt innleidd meginregla tilskipunar 2009/ 33/EB um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum auk þess sem reglugerð til frekari innleiðingar á tilskipuninni verður veitt lagastoð. Í frumvarpinu er áréttað í bráðabirgðaákvæði að gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir hvað varðar flugstarfsemi verði takmarkað við flug á milli flugvalla innan Evrópska efnahagssvæðisins til loka árs 2016 auk þess sem viðmiðunartímabil fjárhæðar losunargjalds er fært fram um einn mánuð.
    Tilskipun 2009/31/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 115/2012 frá 15. júní 2012 er tók gildi 1. júní 2013. EFTA-ríkin þurfa samkvæmt ákvæðum EES-samningsins að innleiða efni þeirra gerða sem teknar eru upp í samninginn um leið og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekur gildi. Með bréfi, dags. 16. október 2013, birti Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum formlegar athugasemdir (e. Letter of formal notice). Íslensk stjórnvöld upplýstu stofnunina um að vonir stæðu til þess að frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni yrði tilbúið til framlagningar á vorþingi 2014. Eftirlitsstofnun EFTA birti íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit (e. Reasoned opinion), dags. 18. desember 2013, vegna þess að íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir til innleiðingar á tilskipun 2009/31/EB.
    Tilskipun 2009/33/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 173/2013 frá 8. október 2013. Ákvörðunin tók gildi 9. október 2013.
    Með lögum nr. 52/2014, um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, sem samþykkt voru á Alþingi 16. maí 2014, var veitt lagastoð fyrir reglugerð til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020. Nauðsynlegt var að EES/EFTA-ríkin innleiddu reglugerðina á sama tíma og aðildarríki ESB en reglugerð (ESB) nr. 421/2014 kveður á um að gildissvið tilskipunar 2003/87/EB takmarkist við flug innan flugvalla á EES-svæðinu auk þess sem skylda flugrekenda til skýrsluskila og skila á losunarheimildum frestast um eitt ár.
    Losunargjald samkvæmt loftslagslögum er greitt af starfsstöðvum sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Þau fyrirtæki sem óskuðu eftir því að vera undanskilin gildissviði viðskiptakerfisins þurftu fyrir 10. ágúst 2012 að sækja um undanþágu þess efnis til Umhverfisstofnunar. Undanþegnar starfsstöðvar þurfa fyrir 31. mars ár hvert að skila skýrslu til Umhverfisstofnunar þar sem sýnt er fram á að starfsstöðin uppfylli enn skilyrði um að vera undanþegin gildissviði viðskiptakerfisins og að losun frá starfsstöðinni sé undir 25.000 tonnum af koldíoxíðsígildum á undangengnu almanaksári eða að uppfyllt sé skilyrði um að uppsett afl sé undir 35 MW í þeim tilvikum þegar brennsla er hluti af starfseminni.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta felur í sér lagabreytingar til innleiðingar á tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jarðlögum. Frumvarpið innleiðir jafnframt þá skyldu sem kveðið er á um í tilskipun 2009/33/EB að taka tillit til heildarorkunýtingar og umhverfisáhrifa á endingartíma ökutækis, þ.m.t. orkunotkunar, losunar koldíoxíðs og losunar mengandi efna, í tækniforskriftum og valforsendum við opinber innkaup yfir ákveðnum viðmiðunarmörkum samkvæmt lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup (21.571.317 kr. árið 2014), auk þess að veita reglugerð til frekari innleiðingar á tilskipuninni lagastoð. Hér er því um að ræða ökutæki sem notuð eru til farþega- og vöruflutninga á vegum og talin eru upp í töflu 3 í viðauka við tilskipun 2009/33/EB. Hvað varðar efni tilskipunar 2009/31/EB voru íslenskum stjórnvöldum gefnir tveir mánuðir frá dagsetningu rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA, sem var dagsett 18. desember 2013, til þess að fara að tilmælum álitsins. Íslenskum stjórnvöldum bar jafnframt að innleiða ákvæði tilskipunar 2009/33/EB á sama tíma og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tók gildi sem var 9. október 2013. Hvað bráðabirgðaákvæði frumvarpsins varðar, sbr. a-lið 5. gr., þá er því ætlað að vera til fullnaðarinnleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
    Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil fjárhæðar losunargjalds skv. 3. mgr. 14. gr. laganna verði fært fram um mánuð og verði árshringur frá 1. ágúst ár hvert til 31. júlí næsta árs. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er nauðsynleg svo að hægt verði að láta breytingu á fjárhæð gjaldsins fylgja frumvarpi til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps (breytingu ýmissa laga) sem fylgir frumvarpi til fjárlaga ár hvert en verði viðmiðunartímabil 3. mgr. 14. gr. laganna óbreytt hefur það í för með sér að fjárhæð gjaldsins mun liggja fyrir of seint til að breyting á fjárhæð gjaldsins geti fylgt fjárlögum.
    Ákveðið var að fara þá leið að innleiða tilskipanir 2009/31/EB og 2009/33/EB í loftslagslög þar sem efni þeirra varðar ástand loftslagsins á einn eða annan hátt. Tilskipun 2009/31/ EB kveður á um að koldíoxíði sé dælt niður í jarðlög neðanjarðar þar sem það skuli geymt til frambúðar og tilskipun 2009/33/EB kveður á um að örva markaðinn fyrir vistvæn og orkunýtin ökutæki og hvetja framleiðendur og iðnaðinn til að þróa enn frekar ökutæki með litla orkunotkun, losun koldíoxíðs og annarra mengandi efna. Í tilfelli tilskipunar 2009/31/EB er sett ákvæði um tímabundið bann við niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs nema í tilraunaskyni. Með því að leyfa tímabundið geymslu og föngun í tilraunaskyni er leitast við að innleiða gerðina á sem minnst íþyngjandi hátt og unnt er. Innleiðing tilskipunar 2009/33/EB í lög með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu, auk reglugerðarheimildar, er einnig leið til innleiðingar sem hefur ekki í för með sér auknar stjórnsýslulegar byrðar umfram það sem nauðsynlegt er til að innleiða tilskipunina á fullnægjandi hátt. Innleiðingin er því ekki meira íþyngjandi en aðrar færar leiðir við innleiðingu.

III. Meginefni frumvarpsins.
Tilskipun 2009/31/EB.
    Í frumvarpinu er að finna skilgreiningu á því hvað felst í geymslu koldíoxíðs í jarðlögum samkvæmt tilskipun 2009/31/EB. Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að geymsla koldíoxíðs í jarðlögum, á þann hátt er tilskipunin mælir fyrir um, verði bönnuð. Tekið er fram að ákvörðun um að banna geymslu koldíoxíðs eigi ekki að hafa áhrif á verkefni í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni þar sem ætlunin er að geyma í heild minna en 100 kílótonn koldíoxíðs. Jafnframt er tekið fram í ákvæði til bráðabirgða, sbr. b-lið 5. gr., að bann við geymslu koldíoxíðs skuli endurskoðað ekki seinna en árið 2020. Ákvörðun um að leggja til frumvarpsákvæði um bann við geymslu koldíoxíðs í jarðlögum á Íslandi var tekin af ráðuneytinu að vel ígrunduðu máli og að höfðu samráði við aðstandendur CarbFix- og Sulfix-verkefnanna en þau miða að því að draga úr losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum á Hengilssvæðinu.
    Helsta röksemd fyrir tímabundnu banni við geymslu koldíoxíðs í jarðlögum á Íslandi er sú að talið er rétt að gefa lengri tíma við undirbúning á innleiðingu tilskipunar 2009/31/EB á þann veg að niðurdæling og geymslu koldíoxíðs verði heimil. Íslensk stjórnvöld eru jákvæð gagnvart þeirri aðferð við niðurdælingu sem notast er við í tilraunaverkefnum SulFix og CarbFix á Hellisheiði. Margt bendir hins vegar til að ákvæði tilskipunar 2009/31/EB séu sniðin að öðruvísi aðstæðum en er að finna hér á landi og að ákvæði hennar sem fjalla um vöktun til langs tíma séu óþörf fyrir utan að vera mjög kostnaðarsöm.
    Niðurdæling og geymsla í Evrópu hefur miðast við að koldíoxíði sé dælt niður í jarðlög á a.m.k. 800 m dýpi þar sem það er síðan geymt við yfirmarksástand. Slík geymsla krefst ákveðinna jarðfræðilegra aðstæðna: Jarðlögin þurfa bæði að vera gegndræp og holótt þannig að hægt sé að dæla koldíoxíðinu inn í þau og í þeim þarf að vera nægilegt rými fyrir koldíoxíðið. Ofan á þessu geymslulagi þarf að vera þétt sprungulaust jarðlag sem kemur í veg fyrir leka á koldíoxíði til yfirborðsins. Svæðið þarf einnig að vera laust við jarðskjálftavirkni. Sú aðferð við geymslu á koldíoxíði sem gengið er út frá í tilskipuninni er ekki raunhæfur kostur hér á landi því að á Íslandi og í efnahagslögsögu þess er ekki að finna olíu- og gaslindir, kolalög eða jarðsjó í setlögum sem henta til geymslu á koldíoxíði af þessu tagi, auk þess sem jarðhræringar eru algengar. Jarðfræðilegar aðstæður hér virðast því ekki henta til geymslu á koldíoxíði í jarðlögum á nákvæmlega þann hátt sem tilskipun 2009/31/EB miðar við.
    Í CarbFix- og SulFix-verkefnunum eru gerðar rannsóknir á bindingu koldíoxíðs (í formi kolsýru) og brennisteinsvetnis í basalti. Í þeim er ekki notast við sömu aðferð við geymslu koldíoxíðs og virðist vera gengið út frá í tilskipun 2009/31/EB heldur eru koldíoxíð og brennisteinsvetni leyst upp í vatni sem er dælt inn í holótt basalt. Uppleystu gösin bindast í basaltinu og kristallast í jarðlögum. Í CarbFix- og SulFix-verkefnunum er því ekki gert ráð fyrir að koldíoxíð sé geymt í jarðlögum neðanjarðar við yfirmarksástand líkt og tilskipun 2009/31/EB gerir ráð fyrir þar sem hætta skapast á að koldíoxíð sleppi út og leiti aftur upp á yfirborðið. Ákvæði tilskipunarinnar um umfangsmikla vöktun í 30 ár vegna hugsanlegs leka til yfirborðs eiga því ekki við þegar CarbFix- og SulFix-aðferðirnar er notaðar þar sem mikilvægast er að fylgjast með bindingu koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í upphafi strax eftir að því er dælt niður. Einnig má nefna að jarðskjálftavirkni skiptir ekki máli þegar þessi aðferð er notuð við niðurdælingu uppleystra gasa.
    Í ljósi framangreinds varð það að niðurstöðu að tilskipun 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jarðlögum yrði innleidd í íslensk lög á þann hátt að nýtt yrði heimild 1. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar um að tímabundið yrði óheimilt að geyma koldíoxíð í jarðlögum á Íslandi. Jafnframt var ákveðið að sett yrði í frumvarpið ákvæði þess efnis að lögin nái ekki til tilraunaverkefna þar sem fyrirhugað er að geyma minna en samtals 100 kílótonn koldíoxíðs. Að síðustu er lagt til að sett verði í lögin til innleiðingar á tilskipuninni ákvæði sem kveður á um að endurskoðun á lögunum fari fram fyrir árið 2020, sbr. b-lið 5. gr. frumvarpsins. Þá er talið að nægilegar framfarir hafi orðið á tækninni þannig að hægt verði að meta hvort fjárhagslega hagkvæmt sé að fara út í geymslu á koldíoxíði.
    Í 38. gr. tilskipunar 2009/31/EB er kveðið á um endurskoðun hennar árið 2015. Framkvæmdastjórn ESB opnaði fyrir almennt samráð í maí 2014 og sendi Orkuveita Reykjavíkur sem meginaðstandandi CarbFix- og SulFix-verkefnanna inn svör við spurningalista þeim er framkvæmdastjórnin óskaði eftir að yrði svarað í tengslum við endurskoðunina. Orkuveitan benti á að ekki væri þörf á jafnströngum ákvæðum um vöktun þegar beitt væri öðrum og öruggari aðferðum en gert væri ráð fyrir í tilskipuninni nú þar sem koldíoxíð væri á endanum í föstu formi en ekki sem gas eða vökvi.

Tilskipun 2009/33/EB.
    Frumvarpið mælir fyrir um að opinberum aðilum beri að taka tillit til heildarorkunýtingar og umhverfisáhrifa á endingartíma ökutækis, a.m.k. orkunotkunar, losunar koldíoxíðs og losunar mengandi efna, í tækniforskriftum og valforsendum við innkaup á ökutækjum í þeim tilvikum þegar fjárhæð kaupa er yfir viðmiðunarmörkum skv. 78. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup (21.571.317 kr. árið 2014). Markmið tilskipunar 2009/33/EB er að örva markaðinn fyrir vistvæn og orkunýtin ökutæki til flutninga á vegum með því að tryggja eftirspurn eftir slíkum ökutækjum. Þetta á að hvetja framleiðendur og iðnaðinn sjálfan til að fjárfesta í og þróa enn frekar sparneytin ökutæki með litla losun koldíoxíðs og annarra mengandi efna. Verð á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum er í mörgum tilfellum hærra en á hefðbundnum ökutækjum en með því að skapa nægilega eftirspurn eftir slíkum ökutækjum verði að öllum líkindum hægt að tryggja að stærðarhagkvæmni leiði til lækkunar á kostnaði. Sé tekið mið af formálsorðum tilskipunarinnar má gera ráð fyrir því að mestu áhrifin á markaðinn og besta kostnaðar- og ábatahlutfallið náist með því að gera það skylt að taka tillit til heildarorkunýtingar og umhverfisáhrifa á endingartíma ökutækis, a.m.k. orkunotkunar, losunar koldíoxíðs og losunar mengandi efna, í skilmálum við opinber innkaup á ökutækjum að því gefnu að slíkar upplýsingar liggi fyrir.

Viðmiðunartímabil fjárhæðar losunargjalds.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á viðmiðunartímabili við ákvörðun fjárhæðar losunargjalds skv. 3. mgr. 14. gr. Losunargjald greiða þær starfsstöðvar sem hafa verið undanskildar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, sbr. 1. mgr. 14. gr. Einungis starfsstöðvar sem voru með losun undir 25.000 tonn á uppgefnu tímabili og með uppgefið afl undir 35 MW hafi brennsla verið hluti af starfseminni gátu sótt um að vera undanskildar gildissviði viðskiptakerfisins. Skv. 3. mgr. 14. gr. skulu þær starfsstöðvar sem hafa verið undanþegnar gildissviði viðskiptakerfisins greiða losunargjald í samræmi við losun gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á undangengnu almanaksári Með losunargjaldi er átt við gjald sem lagt verður á í samræmi við losun gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á undangengnu almanaksári, þó þannig að frá losuninni skuli draga þann fjölda tonna sem samsvarar þeim fjölda losunarheimilda sem starfsstöðinni hefði verið úthlutað endurgjaldslaust í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Bráðabirgðaákvæði til fullnaðarinnleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014.
    Ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða, sbr. a-lið 5. gr., er ætlað að tryggja að reglugerð (ESB) nr. 421/2014, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020, sé að fullu innleidd. Alþingi samþykkti á 143. löggjafarþingi ákvæði til bráðabirgða, sbr. lög nr. 52/2014, sem framlengdi frest flugrekenda til að skila skýrslu vegna losunar koldíoxíðs á árinu 2013 skv. 5. mgr. 21. gr. loftslagslaga til 31. mars 2015 og til að standa skil á losunarheimildum skv. 17. gr. laganna til 30. apríl 2015. Í ákvæðinu sem samþykkt var á vorþingi 2014 var reglugerð til innleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014 sömuleiðis veitt lagastoð. Í því bráðabirgðaákvæði sem lagt er til að verði bætt við loftslagslög er nánar kveðið á um hvernig gildissvið viðskiptakerfisins með loftslagsheimildir þrengist tímabundið til loka árs 2016.

IV. Samráð.
    Innleiðing tilskipunar 2009/31 um kolefnisföngun og geymslu kallaði á samráð með fulltrúum frá Orkuveitu Reykjavíkur og Háskóla Íslands sem eru þátttakendur í CarbFix- og SulFix-verkefnunum á Hellisheiði. Fulltrúar frá ráðuneytinu funduðu með aðstandendum verkefnanna 4. september 2013 og 23. maí 2014 og ræddu mögulegar leiðir við innleiðingu tilskipunarinnar og stöðu verkefnanna gagnvart henni. Aðstandendum verkefnanna var tjáð að vilji stjórnvalda standi til þess að heimila niðurdælingu koldíoxíðs og tryggja að lagaumgjörð til lengri tíma sé í samræmi við íslenskar aðstæður og þá aðferð sem notuð er í verkefnunum, jafnframt því að standast kröfur sem gerðar verða á Evrópska efnahagssvæðinu. Samhliða framlagningu meðfylgjandi frumvarps er fyrirhugað að setja á fót nefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með reglusetningu Evrópusambandsins í tengslum við kolefnisföngun og geymslu og gera tillögu að frumvarpi til laga þess efnis.
    Tilskipun 2009/33/EB um vistvæn og orkunýtin ökutæki snertir málaflokka þriggja ráðuneyta: umhverfis- og auðlindaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis. Fulltrúar þessara þriggja ráðuneyta funduðu nokkrum sinnum veturinn 2013–2014 um efni tilskipunarinnar. Niðurstaða af samráðinu var að umhverfis- og auðlindaráðuneyti skyldi annast innleiðinguna með aðstoð fjármála- og efnahagsráðuneytis með þeim rökum m.a. að þessi tvö ráðuneyti bera ábyrgð á verkefni um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem samþykkt var af ríkisstjórn Íslands í apríl 2013.
    Hvað varðar samráð í tengslum við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins til fullnaðarinnleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014, sem var til breytinga á tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, skal þess getið að fulltrúar ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar fylgdust grannt með þróun málsins á meðan efni breytinganna var til umræðu innan Evrópusambandsins. Fundað var reglulega með fulltrúa Icelandair Group í samráðshópi ráðuneytisins og Samtaka atvinnulífsins um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir og hann upplýstur um gang málsins innan ESB.
    Ráðuneytið hélt fund til kynningar á frumvarpinu þar sem boðaðir voru fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Samorku, Umhverfisstofnun og aðstandendur CarbFix-verkefnisins. Fulltrúi frá Samtökum atvinnulífsins og CarbFix-verkefnisins komu til fundarins. Eftir fundinn var þeim sem boðaðir höfðu verið á fundinn sent frumvarpið og þeim veittur þriggja vikna frestur til að skila umsögn um frumvarpið. Umsagnir bárust frá Orkuveitu Reykjavíkur og Umhverfisstofnun. Samtök atvinnulífsins gerðu ekki athugasemdir við frumvarpið en tóku fram mikilvægi þess að þess yrði getið t.d. í greinargerð að bann við niðurdælingu taki ekki til Sulfix- og Carbfix-verkefnanna. Samorka lýsti því yfir að samtökin tækju undir umsögn Orkuveitu Reykjavíkur um frumvarpsdrögin og lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að bannið tæki ekki til verkefna Orkuveitunnar á Hellisheiði.
    Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur voru lagðar til breytingar á tæknilegu orðalagi í sambandi við niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs og lögð áhersla á mikilvægi þess að gætt væri að hugtakanotkun og það tryggt að rétt hugtök væru notuð í hverju tilviki fyrir sig.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar voru gerðar athugasemdir við nokkur atriði frumvarpsins og gerðar tillögur að breyttu orðalagi. Ráðuneytið tók til greina velflestar athugasemdir stofnunarinnar og bætti við frumvarpið breytingu á 7. mgr. 14. gr. laganna auk nýs ákvæðis sem kveður á um heimild Umhverfisstofnunar til endurúthlutunar losunarheimilda í ljósi breytts gildissviðs viðskiptakerfisins, sbr. a-lið 5. gr. frumvarpsins. Umhverfisstofnun gerði jafnframt athugasemdir við ákvæði b-liðar 3. gr. í frumvarpinu um innkaup á vistvænum bifreiðum og taldi ákvæði tilskipunar 2009/33/EB þegar innleidd í ljósi stefnu ríkisins um grænan ríkisrekstur sem samþykkt var í apríl 2013 auk umhverfisskilyrða sem sett hafi verið um samgöngur er tækju mið af tilskipun 2009/33/EB og nota skyldi við innkaup á bifreiðum. Að mati Umhverfisstofnunar ætti því að fjarlægja ákvæðið og umfjöllun um það í greinargerð úr frumvarpinu. Ráðuneytið bar athugasemd Umhverfisstofnunar undir fjármála- og efnahagsráðuneyti og Ríkiskaup sem töldu að til þess að um fullnægjandi innleiðingu væri að ræða þyrfti að færa ákvæði tilskipunarinnar í lög með þeim hætti sem lagt væri til í frumvarpinu.
    Frumvarpið var einnig sent Ríkiskaupum og óskað eftir því við stofnunina að farið yrði yfir texta frumvarpsins varðandi innleiðingu tilskipunar 2009/31/EB og hugtakanotkun í tengslum við opinber innkaup. Ríkiskaup lögðu til margar breytingar í sambandi við hugtakanotkun sem voru allar teknar til greina í frumvarpinu. Ríkiskaup nefndu einnig að ekki lægju alltaf fyrir upplýsingar um losun koldíoxíðs og annarra þeirra efna sem taka bæri tillit til við innkaup á bifreiðum. Það væri helst vandkvæðum bundið að nálgast slíkar upplýsingar varðandi vörubíla og rútur. Orðalagi ákvæðis b-liðar 3. gr. var því breytt á þann veg að taka bæri tillit til losunar koldíoxíðs og losunar köfnunarefnisoxíða, kolefnissambanda annarra en metans og svifryks þegar slíkar upplýsingar lægju fyrir.

V. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið, verði það samþykkt, mun hafa áhrif á innkaup opinberra aðila eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007, þar sem þeim verður gert skylt að taka tillit til þeirra viðmiða sem kveðið er á um í b-lið 3. gr. þessa frumvarps við útboð í þeim tilvikum þegar fjárhæð kaupa er yfir viðmiðunarmörkum skv. 78. gr. laga um opinber innkaup (frá 17. júlí 2014 eru þessar fjárhæðir 21.571.317 kr. fyrir ríkisaðila og 33.322.856 kr. fyrir sveitarfélög, stofnanir þeirra, aðra opinbera aðila á þeirra vegum og samtök sem þessir aðilar kunna að hafa með sér). Samþykkt frumvarpsins mun hafa í för með sér að opinberir aðilar (ríki, Reykjavíkurborg og önnur stærstu sveitarfélögin) munu kaupa fleiri umhverfisvæn ökutæki sem aftur mun leiða til þess að fleiri vistvænar bifreiðar verða í umferð sem hefur þau áhrif að losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Á móti kemur, eins og áður greinir, að innkaupsverð á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum er í mörgum tilfellum hærra en á hefðbundnum ökutækjum. Með því að skapa nægilega eftirspurn eftir vistvænum og orkunýtnum ökutækjum er þó hægt að tryggja að stærðarhagkvæmni leiði til eins hagstæðra innkaupa og kostur er. Búast má við að áhrifin á Reykjavíkurborg og önnur stærstu sveitarfélögin verði svipuð og hjá ríkinu að teknu tilliti til mismunandi umfangs.
    Það skal tekið fram að nauðsynlegt verður að gefa út reglugerð sem kveður nánar á um efni tilskipunar 2009/33/EB, svo sem hvað varðar nánari skilgreiningu á því hvaða innkaup falla undir ákvæði 3. gr. frumvarpsins og þá aðferðafræði sem beita skal við útreikning á rekstrarkostnaði, endingartíma sem og framfylgd reglnanna. Miðað er við að reglugerðin fari í sjálfstætt kostnaðarmat, m.a. gagnvart þeim sveitarfélögum sem málið varðar.
    Samþykkt frumvarpsins mun jafnframt hafa þau áhrif að tímabundið verður lagt bann við geymslu koldíoxíðs yfir ákveðnum nánar skilgreindum mörkum á íslensku yfirráðasvæði. Það skal tekið fram að fyrir liggur að bannið verði endurskoðað fyrir árið 2020 og fyrirhugað er að leggja fram tillögu að frumvarpi fyrir þann tíma þar sem föngun og geymsla koldíoxíðs verður heimiluð og kveðið á um lagaleg skilyrði þar að lútandi. Hið tímabundna bann hefur ekki áhrif á CarbFix- og SulFix-verkefnin eða önnur verkefni sem nú eru í gangi varðandi niðurdælingu jarðhitavökva.
    Efni bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins, sbr. a-lið 5. gr., hefur í för með sér að fjöldi flugrekenda í umsjá Íslands sem skila þurfa skýrslu og gera upp heimildir samkvæmt breyttu gildissviði viðskiptakerfisins fer niður í fjóra flugrekendur, þ.e. Flugleiðir, WOW Air, Flugfélag Íslands og Bluebird Cargo vegna losunar 2013. Breytt gildissvið viðskiptakerfisins hefur ekki áhrif á þá íslensku flugrekendur sem taka þátt í viðskiptakerfinu því að þeir þurfa áfram að skila skýrslu og gera upp heimildir en breytingin er sú að gildissvið viðskiptakerfisins hefur verið einskorðað við losun frá flugi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt lista frá framkvæmdastjórn ESB sem innleiddur er í reglugerð nr. 896/2012 eru 295 flugrekendur í umsjón Íslands. Af þeim bar rúmlega 70 að skila skýrslu og gera upp heimildir vegna losunar 2012. Þess ber að geta að allir þessir flugrekendur eru áfram í umsjón Íslands þrátt fyrir að þeir skili ekki skýrslu eða geri upp heimildir. Umhverfisstofnun hefur því enn umsjón með öllum þeim flugrekendum sem eru á framangreindum lista og þarf áfram að sinna ákveðinni stjórnsýslulegri umsýslu vegna þeirra flugrekenda, m.a. í formi eftirlits með losun, samskiptum og upplýsingagjöf. Önnur verkefni og dagleg umsýsla stofnunarinnar í kringum flugrekendur er óbreytt þrátt fyrir breytinguna. Má þar nefna eftirlit með losun allra flugrekenda sem falla undir umsjón Íslands, samskipti og upplýsingagjöf til flugrekenda óháð losun, þátttaka í fundum og nefndum, samskipti við framkvæmdastjórn ESB, Eftirlitsstofnun EFTA og Eurocontrol, samráð við önnur ríki, utanumhald og rekstur ETSWAP, sem er kerfi sem heldur utan um skýrsluskil í viðskiptakerfinu, auk þess að fylgjast með öllum þeim breytingum sem eiga sér stað varðandi viðskiptakerfið. Einnig má geta þess að breytingin hefur það í för með sér að Umhverfisstofnun þarf að endurreikna þann fjölda losunarheimilda sem úthluta ber endurgjaldslaust til flugrekenda með tilliti til hins breytta gildissviðs.
    Þá skal það tekið fram að flugrekandi í umsjón Íslands sem samkvæmt nýju gildissviði er undanskilinn skyldu til að skila skýrslu eða því að gera upp heimildir vegna þess að heildarlosun hans á ári er minni en 1.000 tonn getur að nýju þurft að skila skýrslu og gera upp heimildir ef hann eykur eða breytir flugstarfsemi sinni. Flugrekendum sem þurfa að skila skýrslu til Umhverfisstofnunar getur því fjölgað milli ára. Enn fremur getur flugrekendum sem þurfa að skila skýrslu fjölgað vegna tilkomu nýrra flugrekenda. Auk þess er rétt að vekja athygli á að um tímabundna breytingu á gildissviði er að ræða þar sem breytingin tekur einungis til flugstarfsemi frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016.
    Hvað varðar kostnaðaráhrif þá mun Umhverfisstofnun verða af umtalsverðum tekjum vegna breytingarinnar. Samhliða því sem flugrekendum fækkar sem ber skylda til að skila skýrslu verður Umhverfisstofnun af töluverðum tekjum. Samhliða verður Umhverfisstofnun einnig af tekjum vegna skráningarkerfisins með tilliti til þess hverjum ber skylda til að eiga opinn reikning í kerfinu og greiða árgjald.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til skilgreining á geymslu koldíoxíðs í jarðlögum. Í skilgreiningunni er tekið mið af skilgreiningu tilskipunar 2009/31/EB um geymslu koldíoxíðs í jörðu.

Um 2. gr.


     Um a-lið. Losunargjald hefur á sér einkenni skatts og því þarf að breyta fjárhæð gjaldsins á hverju ári með lögum. Miðað hefur verið við tímabil í heilt ár frá 1. september ár hvert en þar sem breyta þarf gjaldinu á hverju ári var tekin sú ákvörðun í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti að hentugast væri að hafa breytinguna í frumvarpi til breytinga á fjárhæð losunargjalds í frumvarpi til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps sem lagt er fram samhliða fjárlögum. Þessi breyting hefur í för með sér að fjárhæð gjaldsins verður að liggja fyrir í síðasta lagi í byrjun ágúst. Vegna þessa þarf að færa viðmiðunartímabil gjaldsins fram um einn mánuð. Gjald fyrir hvert tonn losunar mun því jafngilda meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það var á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður en hin gjaldskylda losun átti sér stað.
     Um b-lið. Lögð er til breyting á 1. málsl. 7. mgr. 14. gr. því að orðalag málsliðarins eins og hann er nú í lögunum er ekki í fullu samræmi við tilgang skýrslunnar í raun. Nauðsynlegt þótti því að breyta orðalaginu til samræmis við raunverulegan tilgang skýrslu undanskilinna starfsstöðva.

Um 3. gr.


    Um a-lið (32. gr. a).
    Lagt er til að geymsla koldíoxíðs verði óheimil í jarðlögum, sérefnahagslögsögu og á landgrunni. Í 2. mgr. ákvæðisins er jafnframt kveðið á um að bannið muni ekki taka til verkefna í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni þar sem ætlunin sé að geyma minna en 100 kílótonn koldíoxíðs. Í ákvæði til bráðabirgða, sbr. b-lið 5. gr., segir að ákvæði 1. mgr. skuli endurskoða ekki seinna en árið 2020. Fjallað er um ástæðu fyrir ákvörðun um tímabundið bann við geymslu koldíoxíðs í almennum athugasemdum en í stuttu máli má segja að það fyrirkomulag sem tilskipun 2009/31/EB gerir ráð fyrir við föngun og geymslu koldíoxíðs virðist ekki henta íslenskum aðstæðum og rétt sé að gefa sér meiri tíma til að setja reglur sem heimila niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs og hvaða skilyrði verða sett fyrir veitingu leyfa um geymslu koldíoxíðs.
     Um b-lið (32. gr. b).
    Í 1. mgr. b-liðar er lagt til að opinberum aðilum, eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, verði gert skylt að taka tillit til heildarorkunýtingar og umhverfisáhrifa á endingartíma ökutækis, a.m.k. orkunotkunar, losunar koldíoxíðs og losunar mengandi efna, í valforsendum við innkaup á ökutækjum í þeim tilvikum þegar fjárhæð kaupa er yfir viðmiðunarfjárhæðum 78. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup (21.571.317 kr. árið 2014) að því gefnu að slíkar upplýsingar liggi fyrir. Jafnframt er kveðið á um að ráðherra skuli setja reglugerð um nánari skilgreiningu á því hvaða innkaup falla undir ákvæðið, þá aðferðafræði sem beita skal við útreikning á rekstrarkostnaði og endingartíma og hvernig reglunum skuli framfylgt.
    Í 5. gr. tilskipunarinnar segir að þau orku- og umhverfisáhrif sem tengist rekstri ökutækis sem taka skuli tillit til við innkaup á ökutækjum skuli a.m.k. vera: orkunotkun, losun koldíoxíðs og losun köfnunarefnisoxíða, vetniskolefna, annarra en metans og efnisagna. Jafnframt segir í ákvæði 5. gr. að kröfurnar skuli uppfylla með því að setja tækniforskriftir sem snúa að árangri í umhverfismálum og orkunýtingu í þau útboðsgögn sem liggja til grundvallar kaupum á vélknúnum ökutækjum til flutninga á vegum fyrir hverja tegund orku- og umhverfisáhrifa auk hverra annarra umhverfisáhrifa. Þessu megi einnig ná fram með því að innifela heildarorkunýtingu og umhverfisáhrif í ákvörðun um kaup þar sem fyrrgreind orku- og umhverfisáhrif eru í valforsendum í innkaupaferli. Í þeim tilvikum þar sem þessum áhrifum er gefið peningalegt gildi í ákvörðun um kaup skal notast við aðferðafræði vegna útreiknings á rekstrarkostnaði á endingartíma, sbr. 6. gr. tilskipunarinnar, en í ákvæðinu er farið á ítarlegan hátt yfir hvernig reikna skuli út rekstrarkostnað vegna eldsneytisnotkunar, losunar koldíoxíðs og losunar mengandi efna. Ákvæði 6. gr. tilskipunar 2009/33/EB verður nánar útfært í reglugerð.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Í a-lið greinarinnar er kveðið á um breytt gildissvið viðskiptakerfis með losunarheimildir. Breytt gildissvið viðskiptakerfisins kemur einnig fram í reglugerð nr. 540/2014 sem er til innleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi með losunarheimildir. Í ákvæðinu er tekið fram að líta skuli svo á að allar kröfur sem gerðar séu til flugrekenda hvað varðar skil á skýrslu um losun koldíoxíðs skv. 21. gr. og skil á losunarheimildum skv. 17. gr. séu uppfylltar frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2016 hvað varðar alla losun frá flugi til og frá:
          Í fyrsta lagi flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
          Í öðru lagi alla losun frá flugi til og frá flugvöllum sem staðsettir eru á svokölluðum ystu svæðum (e. outermost region). Evrópusambandið er með níu svæði sem liggja fjarri meginlandi Evrópu en eru eigi að síður hluti sambandsins. Hér undir falla: fimm frönsk umdæmi handan hafsins (e. overseas department): Martiník, Gvadelúpeyjar, Franska Gínea, Réunion og Mayotte; eitt franskt samfélag (e. overseas community): Sankti Martins-eyjar; tvö portúgölsk sjálfstjórnarsvæði (e. autonomous region): Madeira og Asoreyjar; eitt spænskt sjálfstjórnarsvæði (e. autonomous region): Kanaríeyjar.
          Í þriðja lagi flugvöllum í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en tilheyra ekki Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem Grænlandi, Færeyjum, Svalbarða, Arúbaeyjum, Jerseyeyju, Bermúdaeyjum og Caymaneyjum.
    Enn fremur er tekið fram í ákvæðinu að ekki skuli gripið til aðgerða skv. XIII. kafla laganna gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi til og frá framangreindum svæðum.
    Reglugerð (ESB) nr. 421/2014 kveður einnig á um að frá og með 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 sé flug á vegum flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn undanskilið gildissviði viðskiptakerfisins.
    Lagt er til að kveðið verði á um það að flugrekendur með heildarlosun á ári undir 1.000 tonnum verði undanskildir gildissviði viðskiptakerfisins.
    Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um það að Umhverfisstofnun beri skylda til að endurúthluta losunarheimildum til flugrekenda frá árinu 2013 til 2016 í samræmi við þrengt gildissvið viðskiptakerfisins.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (EES-reglur, geymsla koldíoxíðs, vistvæn ökutæki).

    Með frumvarpinu er lagt til að innleiddar verði tvær tilskipanir, annars vegar tilskipun 2009/31/EB um föngun og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum og hins vegar tilskipun 2009/33/ EB um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum. Þá er viðmiðunartímabil fyrir fjárhæðir losunargjalds fært fram um einn mánuð og gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir takmarkað í bráðabirgðaákvæði við flug á milli flugvalla innan Evrópska efnahagssvæðisins til loka árs 2016.
    Innleiðing á tilskipun 2009/31/EB felur í sér að óheimilt verði að geyma koldíoxíð í jarðlögum, sérefnahagslögsögu og á landgrunni. Undanskilin eru rannsóknar-, þróunar- og prófunarverkefni ef ætlunin með þeim er að geyma minna en 100 kílótonn koldíoxíðs. Innleiðingin mun því ekki hafa áhrif á þau tilraunaverkefni sem nú þegar eru í gangi og miða að því að draga úr losun koldíoxíðs og brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum á Hengilssvæðinu. Endurskoða skal þetta ákvæði samkvæmt frumvarpinu eigi síðar en árið 2020.
    Innleiðing á tilskipun 2009/33/EB felur í sér að opinberir aðilar skulu við innkaup á farþega- og vöruflutningabifreiðum yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu taka mið af líftímakostnaði farartækis vegna orkunotkunar og umhverfisáhrifa. Viðmiðunarfjárhæð er um 21,5 m.kr. á árinu 2014 fyrir ríkisaðila og 33,3 m.kr. fyrir sveitarfélög. Markmiðið með ákvæðinu er að draga úr orkunotkun og skaðlegum umhverfisáhrifum. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð með nánari skilgreiningu á því hvaða innkaup falla undir þetta ákvæði ásamt lýsingu á þeirri aðferðafræði sem beita skal við útreikning á rekstrarkostnaði og endingartíma. Meta þarf kostnaðaráhrif reglugerðarinnar þegar hún liggur fyrir þar sem ekki er vitað hversu íþyngjandi ákvæði hennar verða á þessu stigi. Þó er ekki gert ráð fyrir að kostnaðaráhrifin verði veruleg, enda fá slík farartæki keypt á vegum ríkisins.
    Breyting á viðmiðunartímabili fyrir fjárhæðir losunargjalds verður fært fram um einn mánuð verði frumvarpið að lögum. Fjárhæð losunargjalds er tilgreind í lögum um loftslagsmál og breyta þarf upphæðinni með lagabreytingu ár hvert miðað við meðalverð á viðmiðunartímabilinu. Fjárhæðin er hluti af forsendum fjárlaga og breytingin er gerð til að upphæðin liggi fyrir í tæka tíð til að hægt sé að láta fjárhæð gjaldsins fylgja frumvarpi til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps sem fylgir frumvarpi til fjárlaga. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir verði takmarkað við flug á milli flugvalla innan Evrópska efnahagssvæðisins til loka árs 2016 ásamt því að flug á vegum flugrekenda sem ekki eru með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn er undanþegið til loka ársins 2020. Breytingin hefur í för með sér að fjöldi flugrekenda sem gera upp heimildir fer úr 33 í fjóra og áætlað er að flugrekendum sem greiða árgjald vegna aðgangs að skráningarkerfi fækki úr 33 í 16. Áætlað er að þessi breyting hafi þau áhrif að tekjur Umhverfisstofnunar af gjaldtöku vegna skráningarkerfis, vöktunar og skýrslugjafar lækki um 6,8 m.kr. Þar sem um er að ræða gjald fyrir þjónustu á það að endurspegla þann kostnað sem til fellur hjá stofnuninni vegna þessara verkefna. Fækkunin, og þar með minna umfang, ætti því annaðhvort að hafa í för með sér að kostnaður stofnunarinnar lækkar á móti eða að gjaldskrá verði breytt til að endurspegla kostnað við skráningarnar. Tekjulækkunin ætti því ekki að hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þeir þættir sem áætlað er að geti haft áhrif eru annars vegar innleiðing tilskipunar um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum. Óvíst er um áhrif þess á afkomu ríkissjóðs en kostnaðarmeta þarf áhrif reglugerðar sem ætlað er að útlista nánar hvernig staðið skuli að framkvæmd þessa ákvæðis þegar hún liggur fyrir. Hins vegar geta tímabundnar breytingar á gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir haft áhrif á afkomu ríkissjóðs en þau áhrif munu að mestu endurspeglast í breyttum gjaldskrám eða umfangi sem fjármagnað er með gjaldtöku og því ættu áhrifin á afkomu ríkissjóðs að vera óveruleg.